Grænt dagatal

Verkin í garðinum eru fjölbreytt og óþrjótandi. Lífverur garðsins taka á sig ólíkar myndir eftir því hver árstíðin er og oftar en ekki þarf að nýta sumarið vel ef ætlunin er að ala áhugaverðar plöntur til augnayndis eða átu. Skipulagning er nauðsynleg er vel á að takast til. Kíkjum því á árið í garðinum okkar og sjáum hvenær best er að standa að hinu og þessu.

Janúar - mars

Flestir myndu ætla að fátt væri hægt að gera í garðinum á þessum árstíma. Samt sem áður er ýmislegt hægt til undirbúnings komandi sumri.

- Á þessu tímabili má sá flestum þeim sumarblómum sem hugurinn girnist.

- Grúska í garðyrkjutímaritum, bókum og plöntulistum gróðrarstöðva og skipuleggja framkvæmdir vorsins og sumarsins.

- Í febrúarlok fara vorlaukar að fást í garðyrkjuverslunum. Maríusóleyjar, begoníur og ýmsar framandi liljur eru meðal þess sem fæst á þessum tíma.

- Klippa og snyrta trjá- og runnagróður í garðinum. Það má í raun gera allt árið, en stórtækar aðgerðir eru heppilegar á þessum tímabili og allt fram á gróandann.

- Njóta garðsins í vetrarbúningi og hugsa sér hverju megi bæta við til að fegra ásýnd hans þegar sumarið gengur í garð. Til dæmis fegra sígrænir runnar mikið upp á garðinn að vetrinum og má þá nefna himalajaeini og dvergfuru.

- Setja út ávexti, korn og brauð til að fæða fiðraða vini á köldum dögum.


Apríl – maí

Nú er verulega farið að halla að vori og víða ber þess vitni í umhverfinu. Brum á trjágróðri eru farin að þrútna og ýmsir fjölæringar eru farnir að gægjast upp úr moldinni.

- Hefja forræktun á grænmeti. Kálmeti í aprílbyrjun, salat í maí.

- Raða kartöfluútsæði í kassa til spírunar í maíbyrjun og setja niður í maílok eða júníbyrjun.

- Síðla í maí er víðast hvar orðið frostlaust í jörðu. Þá er tilvalið að hefja gróðursetningu á hverskyns gróðri. Plöntum úr gróðrarstöðvum er hægt að planta allt sumarið og langt fram eftir hausti. Einnig er rétt að gefa plöntunum áburð. Mikilvægt er að huga að jarðveginum og hvort þurfi að bæta hann

- Flytja trjáplöntur og runna til ef þess þarf. Stór tré ætti að undirbúa með rótarskerðingu ári áður.

- Flytja og skipta fjölærum plöntum. Tegundir sem lifna og blómgast snemma ætti að skipta síðsumars þegar þær byrja að visna.

- Huga að maðki í trjágróðri þegar vöxtur hefst. Úða ef þörf þykir. Óþarft að úða allan gróður.

- Hreinsa til í beðum. Lauf frá fyrra ári er tilvalið að setja í safnkassa eða undir runnagróður þar sem að ánamaðkarnir koma því aftur í umferð.



Júní – ágúst

Sumarið er gengið í garð með sólskini í heiði. Nú fer í hönd helsti annatími þess sem ræktar garðinn sinn.

- Slá blettinn. Það er jú nauðsynlegur fylgifiskur sumarsins.

- Bera á grasflöt og annan gróður. Áburður á grasflötina hjálpar til við að halda mosa í skefjum. Tilbúinn áburður eða lífrænn. Sá lífræni stuðlar að auknu örverulífi í jarðvegi sem er gagnlegt.

- Prýða með sumarblómum. Stjúpur geta farið niður snemma sumars, jafnvel síðla maí enda þola þær ýmislegt misjafnt. Sumarblóm fást orðið lengi sumars. Tilvalið að breyta til upp úr miðju sumri og planta einhverju sem stendur jafnvel fram á vetur, s.s. skrautkáli og silfurkambi.

- Í gróðrarstöðvum fást forræktaðar matjurtir af ýmsum tegundum. Aðallega kálmeti og salat. Planta út fyrripart sumars.

- Síðsumars er hægt að uppskera það sem til var sáð. Af blaðsalati má reyndar tína blöð án þess að taka alla plöntuna. Hvítkál má uppskera upp úr miðjum júlí hafi það farið snemma niður og aðrar káltegundir aðeins síðar.

September – desember

Sumri hallar og vetur gengur í garð. Haustið er tíminn til að njóta ávaxta sumarsins og litadýrðar gróðurríkisins í haustlitum.

- Í septemberbyrjun er kominn uppskerutími fyrir kartöflur.

- Huga að gróðri sem prýðir fram á vetur. Sígrænn gróður í kerjum setur mikinn svip á aðkomu húsa og sumar tegundir sumarblóma geta enst ótrúlega lengi.

- Við lauffall ætti að raka sem mestu laufi af grasflötum og út í beð. Þar nýtist það sem vetrarskjól fyrir fjölærar jurtir sem dorma í jarðvegsyfirborðinu.

- Huga að vetrarskýlingu ef þess þarf. Sumar sígrænar tegundir getur þurft að skýla á erfiðum stöðum, sér í lagi fyrstu eitt til tvö árin.

- Haustlaukar eru “loforð um litríkt vor” eins og þar stendur. Laukar fást frá því í september og fram í frost.

Svæði

Sólskógar  |  Sími Akureyri:  462-2400    |  solskogar@solskogar.is